Vísindamenn, sem rannsakað hafa sýni er tekin voru með borunum á Norðurpólnum, segja að þar hafi ríkt hitabeltisloftslag fyrir um 55 milljónum ára. Vísindamennirnir segja að meðalhiti á pólnum hafi verið mun meiri en áður var talið. Ástæðan er skyndileg losun koltvísýrings af náttúrulegum völdum í miklu magni sem olli gróðurhúsaáhrifum og hækkaði hitastig jarðar mikið.
Ekki er vitað hvað nákvæmlega olli gróðurhúsaáhrifunum, en vitað er að mikil losun varð á koltvísýringi go segja vísindamennirnir þetta sanna að gróðurhúsaáhrif séu staðreynd. Áður var talið að meðan að á þessu skeiði stóð hafi verið svalt á Norðurpólnum miðað við suðlægari svæði, en umræddar rannsóknir sýna að svo var ekki, á pólnum var a.m.k. ekki svalt.
Mark Pagani, meðlimur Arctic Coring Exoedition, hópsins sem stendur að rannsóknunum, segir að þótt þetta hljómi vel hafi sú ekki verið raunin. Moskítóflugur á stærð við mannshöfuð, raki, hitabeltisgróður, forfeður krókódíla og mikil fen einkenndu svæðið á þessum tíma.
Rannsóknin sýnir einnig að lífríkið leysti vandamálið á eigin spýtur, burknategund að nafni Azolla, sem enn finnst á hitabeltissvæðum, hóf að breiðast út þar til hann var orðinn svo útbreiddur að hann breyti hlutfalli koltvísýrings í andrúmsloftinu og minnkaði áhrifin.