Talið að yfir helmingur hugbúnaðar í íslenskum einkatölvum sé ólöglega fenginn

Alþjóðlega rannsóknarfyrirtækið IDC áætlar að 57% hugbúnaðar á íslenskum einkatölvum á síðasta ári hafi verið fenginn með ólöglegum hætti. Þetta er talsvert hærra hlutfall en í nágrannalöndunum en meðalhlutfall illa fengins hugbúnaðar um allan heim var talið um 35% á síðasta ári. Áætlað tap rétthafa vegna þessa nam u.þ.b. 1,3 milljörðum króna hér á landi á síðasta ári.

IDC hefur síðustu þrjú ár, í samvinnu við Business Software Alliance, gert alþjóðlega rannsókn á hugbúnaðarstuldi um allan heim. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland tekur þátt í rannsókninni.

Í skýrslu IDC kemur fram, að þessar niðurstöður sýni að notkun hugbúnaðar á Íslandi sé ekki í samræmi við það sem þekkist á sambærilegum mörkuðum á borð við hin Norðurlöndin, Þýskaland, Bretland, Benelux-löndin eða Bandaríkin, þrátt fyrir að hér sé nútímalegt hagkerfi og þróað samfélag. Öll þessara landa hafa hlutfall illa fengins hugbúnaðar undir 30%. Hlutfall Íslands er sambærilegt við mörg hagkerfi sem enn eru í þróun í Asíu og Mið- og Austur-Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert