Vísindamenn hanna huliðshjálm

Ósýnileiki er nokkuð sem hingað til hefur aðeins átt sér tilvist í vísindaskáldskap og fjörugu ímyndunarafli. Samkvæmt fréttavef BBC gæti það þó breyst, því vísindamenn í Bretlandi og Bandaríkjunum vinna nú að því að hanna efni sem leiða hjá sér ljós og eru því ósýnileg.

Tvö teymi, í Bretlandi annars vegar og Bandaríkjunum hins vegar, hafa unnið að því að undanförnu að hanna efni, sem valda því að það sem efnið er klætt með sjáist ekki. Breski prófessorinn John Pendrey segir mögulegt að sýniseintak sem blekkt gæti ratsjár verði tilbúið eftir hálft annað ár.

Báðir hóparnir vinna eftir sömu hugmyndum um að hægt sé að hanna efni sem leiðir hjá sér ljós, líkt og hefðbundin föst efni leiða hjá sér vatn.

Pendry útskýrir vísindin þannig, að vatn hegði sér öðruvísi en ljós þegar það lendi á efni. Ef blýanti er dýft í vatn flæðir vatnið umhverfis blýantinn og þegar blýanturinn er tekinn úr vatninu sé engin leið að sjá á vatninu að í því hafi verið hlutur. Ljós hefur hins vegar aðra eiginleika, skellur á því sem fyrir verður og tvístrast.

Pendry heldur því fram að með því að hanna efni sem fer eins með ljós og önnur efni fara með vatn mætti sveigja ljósið fram hjá þeim hlut sem klæddur er efninu og gera hann þannig ósýnilegan.

Huliðsefni mætti nota á ýmsa vegu, ekki síst í hernaðarlegum tilgangi, en næsta víst er að langt er þar til hægt verður að fela hluti á borð við þotur fyrir þeim sem ekki mega sjá.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert