Google þróar netlægan töflureikni

Larry Page, annar stofnenda Google
Larry Page, annar stofnenda Google Reuters

Fyrir fáum arum státaði Google af einum litlum innsláttarglugga og undarlegu nafni. Sú tækni hefur reynst vel, en svo virðist sem Google vilji beita heimspeki sinni um einfaldleika og góðmennsku sem víðast, eða leggja undir sig heiminn. Þeim fjölgar sífellt vörunum frá Google og sú nýjasta er töflureiknir sem hægt er að nota með vafra án þess að setja upp sérstakan hugbúnað.

Google Spreadsheet býður upp á grunn-eiginleika venjulegs töflureiknis, hann reiknar, býður upp á safn formúla og notandi getur sniðið útlit og framsetningu gagna að sínu höfði. Einnig er hægt að opna skjöl úr forritinu Excel svo ekki þarf lengur að sækja þungan pakka á borð við OpenOffice eða greiða fyrir Office pakkann frá Microsoft til að vinna Excel skjöl.

Kostirnir liggja reyndar ekki í því sem töflureiknirinn hermir vel eftir öðrum hugbúnaði, enda er hann enn í þróun, heldur í þeim kostum sem fylgja því að hugbúnaðurinn er miðlægur á netinu. Tveir eða fleiri notendur geta haft hugbúnaðinn opinn í einu og unnið saman. Spjallgluggi er þá opinn til hliðar þar sem hægt er að skiptast á skoðunum.

Almenningi býðst enn sem komið er ekki að nota töflureikninn en notendur Gmail tölvupósts geta sótt um aðgang.

Þeir, sem nota vörur frá leitarrisanum, geta nú, auk þess að leita, skoðað heiminn með Google Earth, sótt tölvupóst, skipulagt sig með dagatali Google, þýtt texta, hannað vefsíður, skipulagt myndasafnið, bloggað og spjallað eða hringt.

Fleiri kostir eru reyndar í boði, en það merkilega er e.t.v. að allt ofantalið er ókeypis, án þess að notandanum sé drekkt í auglýsingum, og flest hægt að vinna í venjulegum vafra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka