Bandarískir vísindamenn segjast nú hafa ræktað kött sem veldur ekki ofnæmi, þannig að þeir, sem ofnæmi hafa fyrir köttum, ættu að geta þolað einn slíkan. Kötturinn kostar 4.000 dollara, um 300 þúsund krónur. Líftæknifyrirtækið Allerca ræktaði köttinn og segir marga ofnæmisþjáða dýravini fúsa til að greiða slíka upphæð fyrir dýrið.
Vísindamennirnir segjast hafa einangrað erfðaefni katta, sem valda minni ofnæmisviðbrögðum en aðrir og ræktuðu slíka ketti þar til „ofurkötturinn“ kom í heiminn, þ.e. sá sem engum ofnæmisviðbrögðum veldur. Fyrirtækið býst við því að koma kettinum á markað á næsta ári.