Stig Wall fær norrænu lýðheilsuverðlaunin

Frá afhendingu verðlaunanna
Frá afhendingu verðlaunanna

Norrænu lýðheilsuverðlaunin 2006 koma í hlut sænska lýðheilsuprófessorsins Stigs Walls. Hann er starfandi við Háskólann í Umeå og fær verðlaunin að þessu sinni fyrir framlag sitt til lýðheilsu og bætts heilsufars heima og heiman.

Í fréttatilkynningu kemur fram, að Stig Wall hefur haft mikil áhrif, bæði á norrænum vettvangi og alþjóðlegum, til dæmis með því að rökstyðja og gera sýnilega þá samfélagslegu þætti sem áhrif hafa á heilsufar einstaklinga, hópa og þjóða. Verðlaunahafinn hefur lagt áherslu á að allar þjóðir beri sameiginlega ábyrgð á heilsufarsástandinu í heiminum og leggur sig fram um að benda mönnum á sambandið milli heilsufars heima og heiman. – Iðnríkin hafa gríðarleg áhrif í þriðja heiminum með lífsháttum sínum og við ættum ekki að breiða út um heimsbyggðina lífshætti, sem einkennast af lélegu fæði, áfengis- og tóbaksneyslu og hreyfingarleysi – við eigum að uppfræða og dreifa um heiminn þekkingunni um það hvernig við bætum lýðsheilsu og heilsufar þjóða, segir Stig Wall í tilefni verðlaunaafhendingarinnar.

Það var Sylvia Brustad, heilbrigðismálaráðherra Noregs, sem afhenti norrænu lýðheilsuverðlaunin á ráðherrafundi í Norður-Noregi, en verðlaunaupphæðin er 50 þúsund sænskar krónur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka