Fræ allt að þriggja milljóna plantna varðveitt í sífreranum á Svalbarða

Hornsteinn verður á morgun lagður að geymsluhólfi sem grafið verður ofan í sífrerann á Svalbarða þar sem varðveita á fræ allt að þriggja milljóna plöntutegunda hvaðanæva úr heiminum. Landbúnaðarráðherra Noregs segir þetta verða „örkina hans Nóa á Svalbarða“.

Tilgangurinn með þessu geymsluhólfi er að tryggja fjölbreytni plöntulífsins á jörðinni ef plöntufarsóttir, kjarnorkustyrjöld, náttúruhamfarir eða loftslagsbreytingar myndu eyða henni. Einnig er markmiðið að geta með þessu hafið á ný ræktun matjurta sem kunni að eyðast.

Fræin verða geymd við hitastig sem tryggir að þau lifi í hundruð eða jafnvel þúsundir ára. Ætlunin er að byrjað verði að safna fræjum í geymsluna í september á næsta ári.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna verða viðstaddir lagningu hornsteinsins á morgun, skammt frá Longyearbyen, um eitt þúsund km frá norðurpólnum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert