Kínverjar ætla að senda mann til tunglsins

Um 350.000 kílómetrar skilja að tunglið og Perluna
Um 350.000 kílómetrar skilja að tunglið og Perluna mbl.is/RAX

Síðasti maðurinn sem steig á tunglið yfirgaf það í desember árið 1972. Næsti fulltrúi mannkyns á mánanum verður líklega kínverskur, því samkvæmt danska dagblaðinu Politiken ætla Kínverjar að senda mann til tunglsins árið 2024.

Haft er eftir Long Lehao, talsmanni tungláætlunar Kínverja, að Kínverjar ætli þegar á næsta ári að senda ómannað geimfar til tunglsins til að kanna yfirborð þess. Segir Lehao að Kínverjar hafi nú tækni, efni og efnahagslegan styrk til að senda mann til tunglsins.

Kínverjar urðu þriðja land heims, á eftir Bandaríkjamönnum og Sovétmönnum, til að senda mann á eigin vegum út í geim. Í október á síðasta ári sendi landið svo tvo menn á sporbraut um jörðu.

Tungláætlunin hefur fengið nafnið Chang-e í höfuðið á goðsögn um dís sem býr á tunglinu. Ef allt fer að óskum lendir vélmenni á tunglinu árið 2017 og tekur þar málmsýni. Sjö árum síðar er svo ætlunin að fyrsti Kínverjinn lendi á tunglinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert