Með sálfræðimeðferð er hægt að endurvekja frjósemi kvenna sem hafa í miklu að snúast og þjást af þeim sökum af svo mikilli streitu að þær eru hættar að hafa egglos. Þetta kom fram í erindi bandarísks kvensjúkdóma- og fæðingalæknis á ráðstefnu í Prag í dag.
Frjósemisfræðingar hafa lengi reynt að útskýra hvers vegna sumar konur sem eru duglegar, ungar og að öllu leyti hraustar verða skyndilega ófrjóar. Talið hefur verið að þetta mætti í sumum tilvikum rekja til hormónabreytinga af völdum of mikillar líkamsræktar eða vannæringar.
En Sara Berga, prófessor í kvensjúkdóma- og fæðingarlækningum við Emoryháskóla í Atlanta í Bandaríkjunum, kynnti í dag frumniðurstöður rannsókna er benda til að orsökina megi rekja til streitu, og hægt sé að endurvekja frjósemi þessara kvenna með sálfræðiaðstoð.
Sextán konur sem ekki höfðu haft blæðingar í hálft ár tóku þátt í rannsókninni. Þær voru allar innan eðlilegra þyngdarmarka. Sumar höfðu tilhneigingu til fullkomnunaráráttu og voru af þeim sökum undir miklu álagi, annaðhvort á heimilinu eða í vinnu. Öðrum þátttakendum fannst sem yfirþyrmandi kröfur væru gerðar til sín.
Konurnar voru ófrjóar vegna langvarandi samdráttar á framleiðslu hormóna sem leiða til egglos. En afdráttarlausust var þó greining á mænuvökva kvennanna, er leiddi í ljós mikið magn kortisóls, hormóns sem er streitumerki og oft talið tengjast þunglyndi, beinþynningu og öðrum kvillum.
Konunum var skipt í tvo hópa. Annar hópurinn fékk hugræna atferlismeðferð í 20 vikur, en hinn hópurinn var einungis undir eftirliti. "Hvorki meira né minna en 80% af konunum sem fengu hugræna atferlismeðferð fóru aftur að hafa egglos, en einungis 25% þeirra sem einungis var fylgst með," sagði Berga á ráðstefnunni, sem haldin var á vegum Æxlunar- og fósturfræðisamtaka Evrópu (ESHRE).