Farsímaeigendur hjá Og Vodafone fá sendar ruslsendingar

Hópur farsímanotenda hjá Og Vodafone hefur að undanförnu fengið SMS um að hann hafi verið skráður á erlenda stefnumótasíðu. Þessi sending er ruslpóstur sem viðskiptavinir eiga alls ekki að taka mark á, samkvæmt tilkynningu frá Og Vodafone. Af skilaboðunum má ráða að tveir Bandaríkjadalir verði skuldfærðir af símreikningi á hverjum degi, en engin ástæða er til að óttast slíkt.

Ekki er um raunverulega stefnumótaþjónustu að ræða, heldur eru hér einungis óprúttnir aðilar á ferð sem senda SMS á notendur sem valdir eru af handahófi. Reynt er að blekkja viðkomandi til þess að hlaða niður ruslforriti í tölvur sínar undir því yfirskini að verið sé að afskrá símanúmerið.

Engin ástæða er til að bregðast við þessum smáskilaboðum með öðrum hætti en að eyða þeim, ekki skal fara á viðkomandi vefsíðu og alls ekki gefa upp símanúmer eða hlaða niður hugbúnaði, að því er segir í tilkynningu frá Og Vodafone.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert