Gífurlegur fjöldi SMS smáskilaboða, jafnvel yfir hundrað þúsund, voru send á íslensk GSM símanúmer um tíu-leytið í morgun. Starfsmenn Friðriks Skúlasonar ehf. vara alla eindregið við því að fara á þessa heimasíðu eða fylgja þeim leiðbeiningum sem þar er að finna. Ef þessum leiðbeiningum er fylgt eftir smitast tölva viðkomandi með hættulegum nýjum bakdyrum.
„Flest veiruvarnarforrit fundu ekki þessar hættulegu bakdyr í morgun og er F-PROT Antivirus veiruvarnarhugbúnaðurinn frá Friðriki Skúlasyni ehf. í raun sá eini sem finnur þessar bakdyr án uppfærsla.
Fyrr í þessum mánuði fengu sumir notendur Símans svipuð smáskilaboð en í þetta sinn eru viðskiptavinir annarra símafyrirtækja einnig að fá þau. SMS smáskilaboðin sjálf skaða ekki og enginn kostnaður er sjálfkrafa skuldfærður á símreikning notenda eins og sagt er í skilaboðunum.
Við hvetjum alla til að eyða þessum smáskilaboðum og hunsa öll slík skilaboð í framtíðinni. Þar að auki eru notendur enn og aftur hvattir til að fylgja ekki þessum leiðbeiningum eða yfir höfuð að keyra upp óþekkt forrit á tölvum sínum. Einnig er mikilvægt að notendur setji upp veiruvarnarhugbúnað á vélum sínum og noti hann til að skanna öll skjöl og forrit sem sótt eru af Netinu," að því er segir í tilkynningu frá Friðriki Skúlasyni ehf. Þessi SMS skilaboð hafa einnig verið send í miklu magni í öðrum löndum víðsvegar um heiminn, þar á meðal í Bretlandi og í Ástralíu.