Heimavöllurinn eykur testósterónflæðið

Betra gengi íþróttaliða á heimavelli kann að mega rekja til aukins testósterónflæðis leikmanna og frumhvatar þeirra til að verja yfirráðasvæði sitt. Þetta er kenning kanadísks sálfræðinema sem uppgötvaði að magn testósteróns í leikmönnum hokkíliðs í Norður-Ontario jókst þegar þeir léku á heimavelli.

Telur sálfræðingurinn, Justin Carré, sem stundar doktorsnám við Brock-háskóla í St. Catharines í Ontario, að þetta kunni að vera ástæðan fyrir því að leikmenn séu öflugri á heimavelli og nái því oftar sigri þar.

Carré greindi frá niðurstöðum sínum á ráðstefnu Alþjóðasamtaka hormónafræðinga í Pittsburgh í gær, en frá þessu segir á fréttavef The Globe and Mail.

Rannsókn hans leiddi í ljós að testósterónmagn í hokkíleikmönnum á aldrinum 16-20 ára jókst bæði fyrir og eftir leik sem þeir unnu. En ef leikurinn fór fram á heimavelli var testósterónið umtalsvert meira fyrir leikinn. Carré telur að hormónaflæðið megi rekja til þeirrar frumhvatar að verja yfirráðasvæði, í þessu tilviki heimavöllinn.

Íþróttasálfræðingur við Háskólann í Alberta segir þessar niðurstöður vera í samræmi við niðurstöður annarra rannsókna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert