Aðsókn að Sjóræningjaflóa hefur tvöfaldast

Nýtt vörumerki Sjóræningjaflóa er fuglinn Fönix
Nýtt vörumerki Sjóræningjaflóa er fuglinn Fönix Pirate Bay

Heimsóknir á vefsíðuna Sjóræningjaflóa, eða The Pirate Bay, tvöfölduðust í kjölfar umfjöllunar um vefinn þegar honum var lokað af lögreglu um síðustu mánaðamót. 3,7 milljónir notenda heimsækja nú síðuna daglega og samkvæmt norska dagblaðinu VG þýðir þetta að tekjur þeirra sem reka síðuna hafi aukist talsvert.

Sænska lögreglan lokaði Sjóræningjaflóa þann 31. maí sl. og gerði allan tækjakost upptækan, þ.á m. netþjóna er hýstu vefsíður sem ætlað er að berjast fyrir réttindum hinna svokölluðu sjóræningja.

Síðan hefur komið í ljós, að samtök kvikmyndaframleiðenda höfðu þrýst á stjórnvöld í Svíþjóð um að aðhafast gegn vefsíðunni sem þá þegar naut mikilla vinsælda.

Lokunin fékk mikla umfjöllun um allan heim og opnaði vefurinn fáeinum dögum síðar, en er nú hýstur í Hollandi. Svokallaðar álagsárásir voru gerðar á netsvæði stjórnvalda og lögreglu í Svíþjóð og leikur grunur á að óánægðir notendur Sjóræningjaflóa hafi staðið að baki þeim. Þá hafa stjórnmálaflokkar sjóræningja verið stofnaðir í Svíþjóð og Bandaríkjunum til að berjast fyrir því að skráaskipti verði gerð lögleg og einkaleyfi afnumin.

Umfjöllunin hefur orðið til þess að aðsókn á vefinn hefur tvöfaldast á skömmum tíma og telur VG að forsprakkar vefjarins hafi rúmlega fimm milljónir íslenskra króna í auglýsingatekjur mánaðarlega, af rekstri hans.

Talsmenn Sjóræningjaflóa segja þó að hann sé rekinn í sjálfboðaliðastarfsemi og að stærsti hluti fjárins fari í að greiða fyrirtækinu sem sér um birtingar auglýsinga, rekstur og kostnað við að kynna málstað sjóræningjanna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka