Nýjar kenningar um offitu

Það hefur lengi verið talið sjálfgefið að fituríkir hamborgarar, gosdrykkir og kartöfluflögur væru allir á meðal orsakavalda í offitufaraldrinum svokallaða sem hefur hrjáð Vesturlandabúa á síðustu áratugum. Vísindamenn eru hins vegar ekki lengur svo vissir um að skella megi skuldinni á neyslu slíkrar matvöru, því þeir telja að ýmsir áður óviðurkenndir þættir geti leitt til offitu.

Þannig er talið að loftkæling, reykingar, erfðaþættir og skortur á svefni séu á meðal ókannaðra orsakavalda í offitufaraldrinum, nú þegar Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) áætlar að um einn milljarður manna stríði við yfirvigt.

Að mati sérfræðinga WHO eru "nokkrir þættir" áhrifamiklir í þessu samhengi, einkanlega breyting í mataræði í átt til fæðu sem inniheldur meiri orku, fitu, salt og sykur en áður. Þá telur stofnunin að minni hreyfing nútímamannsins vegna bættra samgangna og starfa sem útheimti ekki líkamlegt erfiði skipti máli í þessu samhengi.

Þessi tvíþætta túlkun á rótum offitufaraldurins, þ.e.a.s. óhollara fæði og minni hreyfing, er þó umdeild, og á þriðjudag birtust greinar eftir sérfræðinga í tímaritinu International Journal of Obesity, þar sem hún er dregin í efa.

Gagnrýna áherslu á neyslu

Öllu óvenjulegri er þó sú skýring eins greinarhöfundar tímaritsins að loftkæling á bandarískum heimilum hafi leitt til aukinnar matarneyslu, vegna þess að fólki myndi að öðrum kosti borða minna í heitari vistarverum.

Esra Tasali, rannsakandi hjá Chicago-háskóla, hefur rannsakað enn aðra kenningu um orsakir offitu sem varðar svefnvenjur. Að hennar sögn byrjaði mittismál nútímamannsins að víkka út þegar fólk byrjaði að sofa minna, eða aðmeðaltali tveimur tímum skemur á nóttu en fyrir 40 árum.

Svefnvana fólk sólgið í sætindi

Var rannsakendum skipt í þrjá hópa. Einn hópurinn svaf í átta klukkustundir, annar í 12 stundir en sá þriðji í aðeins fjórar stundir.

Þegar matarvenjur þátttakenda voru athugaðar kom í ljós að þeir sem sváfu í aðeins fjórar stundir þróuðu með sér löngun í kaloríuríkt sælgæti, ásamt því sem að efnaskipti þeirra fóru að líkjast því sem er í líkömum sykursýkissjúklinga.

Annar rannsakandi til að leggja fram nýjar hugmyndir í þessari deilu er Nikhil Dhurandhar, aðstoðarprófessor við Louisiana-ríkisháskólann í Bandaríkjunum, en hann telur að veirur kunni að eiga þátt í fitumyndun í mönnum.

Að minnsta kosti tíu mismunandi meinvaldar eru taldir leiða til offitu í dýrum, með því að valda verulegri röskun á efnaskiptum þeirra þannig að meiri orka umbreytist í fitu. Dhurandhar gerði sér grein fyrir þessu og því rannsakaði hann blóð 500 Bandaríkjamanna og fann út að 30 prósent þeirra sem áttu við offitu að stríða höfðu mótefni fyrir Ad-36-veirunni, adenóveiru sem veldur hósta, hnerra og flensueinkennum. Að hans sögn mældust aðeins 11 prósent fólks með eðlilega líkamsþyngd með óverulegt magn Ad-36 veirunnar í blóði sínu, sem styrkir þann grun að hún leiði til fitumyndunar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert