Ottawa. AFP. | Sælgætisgrísir og fleiri ættu að geta glaðst á næstunni því vísindamenn segjast hafa smíðað búnað sem getur endurnýjað tennur og bein sem hafa brotnað. Vísindamennirnir, sem starfa við Alberta-háskólann í Edmonton, hafa sótt um einkaleyfi á búnaðinum eftir að hafa prófað hann á tólf sjúklingum í Kanada, en aðferðin byggist á hljóðbylgjutækni. "Núna hyggjumst við nota þetta til að laga brotnar eða skemmdar tennur og ójöfn kjálkabein, en þetta kann einnig að gagnast íshokkíleikmönnum eða börnum sem hafa misst tennur," segir Jie Chen, prófessor í verkfræði.
Hljóðbylgjutækið, sem er þráðlaust og minna en baun að stærð, er sett inn í munn viðkomandi á spöngum eða í plasthylki. Búnaðurinn nuddar gómana varlega og örvar þannig vöxt tannarinnar frá rótum. Tækið mun eiga að vera í gangi 20 mínútur á degi hverjum í fjóra mánuði. Vonast er til að það verði komið á markað eftir tvö ár.