Stórt smástirni mun fara fram hjá jörðinni um helgina en stjörnufræðingar segja enga hættu á að það lendi á jörðinni. Smástirnið, sem ber nafnið 2004 XP14, mun þjóta fram hjá í um 432.000 kílómetra fjarlægð frá jörðu, sem er litlu meira en fjarlægð tunglsins frá jörðu.
Stirnið mun sjást hvað best frá Norður Ameríku en þar geta áhugasamir séð ljósdepil á hreyfingu með góðum stjörnukíki. XP14 mun einnig sjást frá Evrópu en sést þar mun verr.
Hátt í fjörutíu smástirni hafa komið nær jörðu undanfarin ár, en 2004 XP14 er það langstærsta. Smástirnið er talið vera allt að 800 metrar að þvermáli. Vísindamenn ætla að rannsaka það þegar það fer fram hjá jörðu og reikna út stefnu þess en talið er að það muni eiga leið hjá jörðu a.m.k. tíu sinnum til viðbótar á þessari öld.