Peking. AP. | Kínversk stjórnvöld tilkynntu í gær að þau hygðust herða eftirlit með netumferð í landinu, einkum bloggsíðum og leitarvélum, til að koma í veg fyrir dreifingu efnis sem er talið ósiðlegt eða grafa undan stjórn kommúnista. Tilkynningin kom ekki á óvart en hún kemur í kjölfar herferðar ríkisstjórnar Hu Jintao forseta gegn óæskilegum vefsíðum og blaðamönnum.
"Eftir því sem sífellt meira magni af ólöglegum og óæskilegum upplýsingum er dreift á bloggsíðum og leitarvélum munum við leitast við að grípa til árangursríkra aðgerða til að koma böndum á slíka dreifingu," sagði Cai Wu, formaður upplýsingaskrifstofu stjórnarinnar, í viðtali við Xinhua-fréttastofuna í gær.
Kínversk stjórnvöld hvetja til netnotkunar í viðskiptalífinu og í skólum en reyna að draga úr aðgengi að "óæskilegu" efni. Að sögn Xinhua tengist þessi viðleitni herferð stjórnarinnar sem hófst í febrúar og hefur það að markmiði að "hreinsa umhverfi" net- og farsímanotkunar.
Aðeins í Bandaríkjunum er að finna fleiri netnotendur en í Kína, þar sem talið er að 111 milljónir manna noti netið reglulega. Þá er áætlað að 37 milljónir bloggsíðna sé að finna í Kína og að í ár muni þeim fjölga í tæplega 60 milljónir síðna.