Hópur ástralskra steingervafræðinga segist hafa fundið steingerving vígtenntrar vígakengúru og annars dýrs sem þeir segja „djöfullega dómsdagsönd". Dýrin tvö eru meðal 20 áður óþekktra tegunda sem steingervingar fundust af í Queensland-fylki í Ástralíu.
Michael Archer, prófessor sem fór fyrir hópnum, sagði frá því í dag að steingerðar leifar rándýrskengúru hefðu fundist. Hún hefði verið með vígtennur svipaðar og í úlfi. Þá hefði önnur kengúra fundist sem var með langa framfætur og gat ekki hoppað líkt og kengúrur gera nú. Þær hefðu þess í stað hlaupið á fjórum fótum.
Þessir forfeður kengúrunnar voru uppi fyrir 10-20 milljónum ára. Þá fannst forsögulegur lungnafiskur og stór fugl sem líktist önd og ekki loku fyrir það skotið að hann hafi verið ránfugl. Vísindamennirnir kölluðu fuglinn „djöfullega dómsdagsönd“. Leifarnar eru nú rannsakaðar við háskólann í New South Wales. Reuters segir frá þessu.