Blóðbanki Íslands opnaði í dag vefsíðu helgaða stofnfrumum og rannsóknum á þeim á slóðunum www.stofnfrumur.is og www.stemcells.is. Á vefnum er hægt að fræðast um stofnfrumur og fylgjast með því sem er að gerast á sviði stofnfrumurannsókna hér á landi og erlendis. Á forsíðu munu birtast daglega fréttir af gangi mála og umræðunni um stofnfrumur og tengt efni í heiminum í dag.
Verkefnið er stutt af OgVodafone, sem hefur verið samstarfsaðili Blóðbankans í kynningarmálum á síðustu árum.
Er vefnum ætlað að vera fræðandi fyrir almenning jafnt sem heilbrigðisstarfsfólk og nýtast sem upplýsingamiðill á þessu sviði. Fjallað er um stofnfrumurannsóknir, siðfræði og lög sem tengjast stofnfrumum og klíníska stofnfrumumeðferð (háskammtalyfjameðferð með stofnfrumustuðningi) sem er samstarfsverkefni Blóðbankans og blóðlækningadeildar Landspítala – háskólasjúkrahúss. Einnig er greinargóð kynning á nýrri stofnfrumugjafaskrá Blóðbankans, en Actavis, Norræna ráðherranefndin og Kristínarsjóður Krabbameinsfélags Íslands hafa veitt henni stuðning sinn.