Lamaður stjórnar tölvu með hugarorku

Óskhyggja hefur fengið nýja merkingu, eða aukið mikilvægi, því hópi bandarískra vísindamanna hefur tekist að gera 25 ára gömlum manni sem er lamaður frá hálsi kleift að stjórna tölvu og hreyfa vélarm, með hugarorkunni einni. Græddu vísindamennirnir rafskaut í þann hluta heila mannsins sem stjórnar hreyfingum, og skráðu taugaboð sem þeir gátu svo notað til að stjórna tækjum. Þetta kemur fram á vefsíðu tímaritsins Science Magazine.

Maðurinn sem heitir Matthew Nagle missti allan hreyfimátt eftir að hann var stunginn með hnífi í hrygginn árið 2001. Eftir að rafskautin höfðu verið grædd í heila Nagle var hann beðinn að hugsa um eða að reyna að framkvæma ýmsar hreyfingar. Boðin voru svo skráð og notuð til að stjórna tölvu, og síðar vélarmi.

Tilraunin tókst vonum framar, Nagle gat opnað tölvupóst, skipt um sjónvarpsstöðvar, spilað tölvuleikinn Pong og teiknað hring. Þá notaði Nagle vélarm og gat með honum tekið upp sælgætismola, sleppt honum, og klipið einn vísindamannanna.

Rafskaut hafa reyndar verið grædd í lamaða áður, en með mun einfaldari tækni sem gefur þeim lamaða takmarkaða stjórn á tölvumús. Einn yfirmanna tilraunarinnar, Leigh Hochbert, sem er taugafræðingur við almmenningssjúkrahúsið í Massachusetts segist halda að enn meiri nákvæmni megi ná með auknum rannsóknum. Tilraunin þykir gefa lömuðum vonir um þægilegra líf í framtíðinni, en enn eru nokkur ár þar til hægt verður að markaðssetja tæknina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert