Andinn á vinnustað verður mun betri ef stjórnandinn hefur gott skopskyn, en allt of fáir stjórnendur leggja áherslu á húmor, að því er fram kemur í danska blaðinu Børsen. Húmor og glaðlyndi á vinnustað þýðir ánægðara starfsfólk, ánægðari viðskiptavini, færri veikindadaga og starfsfólk skiptir síður um vinnu.
Vitnað er í samskiptaráðgjafann Karen-Marie Lillelund, sem hefur nýlega skrifað bók um mikilvægi þess að stjórnendur séu glaðlyndir. Segir hún að gott skopskyn og léttlyndi hjá stjórnendum skili sér niður til hinna lægra settu á vinnustaðnum og líka til viðskiptavina. Hún sé ekki að tala um að menn þurfi að reyta af sér fjölda brandara sem framkalli ofsahlátur heldur sé nóg að fá fólk til að brosa dálítið annað slagið, rétt til að brjóta upp hversdaginn.
Lillelund segir allt of litla áherslu lagða á húmor í menntun stjórnenda. "Stjórnendum er sagt að þeir eigi að vera alvarlegir og hafa ákveðinn myndugleika til að bera, eiginleikinn skopskyn er allt of lágt metinn," segir hún.