Hópur breskra og ástralskra vísindamanna segir allar líkur á því að einræktaður einstaklingur myndi finna til einstaklingseðlis. Þessa ályktun hafa þeir dregið af því að ræða við eineggja tvíbura um reynslu sína af því að vera með sömu gen og önnur manneskja. Tvíburarnir sögðust trúa því að genin hefðu aðeins takmörkuð áhrif á persónuleika þeirra.
Umfjöllun um þessa ákveðnu rannsókn verður í næsta tímariti Social Science and Medicine en meðhöfundur greinarinnar, dr. Barbara Prainsack frá Vínarháskóla, segir einræktuðu kindina Dolly hafa vakið upp margar spurningar um hvernig tilfinning það sé að vera einræktaður, s.k. „klón". Ekki er enn hægt að ræða þau mál við einræktaða manneskju, þar sem engin slík er enn til svo vitað sé.
Eineggja tvíburar, líkt og klón, eru með sama erfðaefnið í frumum sínum og eru því það næsta sem vísindamenn komast einræktuðum einstaklingum. Þeir eru þó ólíkir að því leyti að þeir fæðast á sama tíma, en klón eftirmynd einstaklings sem þegar er til eða var til.
Vísindamennirnir tóku 17 viðtöl við eineggja tvíbura, tvíeggja tvíbura og systkini sem ekki voru tvíburar. Eineggja tvíburarnir héldu því fram að hinn tvíburinn drægi ekki úr einstaklingseðli hins, þó svo fólk ætti það til að halda að persónuleiki þeirra væri hinn sami. Þá sögðust þeir sáttir við að vera eineggja tvíburar og myndu ekki vilja skipta því út fyrir annað. Uppeldið hefði meira að segja um persónuleikann, þ.e. að alast upp á sama stað, eiga sömu foreldra, ganga í sama skóla o.s.frv.
Miðað við þessar staðhæfingar eineggja tvíbura ættu klón því ekki að finna síður til einstaklingseðlis, að mati vísindamannanna. BBC segir frá þessu.