Flestir tölvunotendur vita að ráðlegt er að gera öryggisafrit af gögnum reglulega, en það vill gleymast með þeim afleiðingum að gong tapast ef t.d. tölvan verður fyrir hnjaski. Tölvu- og hugbúnaðarframleiðandinn IBM hefur sett á markað hugbúnaðinn Tivoli sem sér um að afrita gögn jafnóðum og þeim er breytt svo tölvunotendur þurfi ekki að hafa áhyggjur af því að tapa gögnum framar.
Hugbúnaðurinn er sagður starfa líkt veiruvarnarhugbúnaði, sem starfar í bakgrunni án þess að notandinn verði var við. Tivoli kostar um 35 Bandaríkjadali og er seldur m.a. á vefsíðu IBM. Fyritækið hannaði fyrirtækjalausn með sömu eiginleikum, sem kom á markað á síðasta ári, en fljótlega fóru fyrirtækinu að berast fyrirspurnir frá almenningi sem vildi kaupa hugbúnaðinn. Tivoli afritar þau gögn sem notandinn hefur merkt jafnóðum og þeim er breytt, eru þau svo vistuð á öðrum diskum, t.d. yfir þráðlaust net.
Ekki er vitað hve margir tölvunotendur gera reglulega öryggisafrit, en líklegt þykir að innan við fjórðungur fólks geri nokkuð til að fyrirbyggja gagnatap.