Þróar kort fyrir farsíma hjá Google

Bandaríska vefleitarfyrirtækið Google hefur undanfarin ár unnið að því að gera kort og gervihnattamyndir af heiminum aðgengileg í gegnum vefinn. Hægt er að nálgast þessar myndir í gegnum tölvu eða í gegnum farsíma og hefur Guðmundur Hafsteinsson stýrt uppbyggingu þessarar þjónustu fyrir farsíma. Nú á dögunum kynnti Google nýjung í farsímaþjónustu sinni, en nú er hægt að sjá umferðarþunga á stærstu hraðbrautum Bandaríkjanna í gegnum farsímann.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Guðmundur að hann hafi unnið að þessu verkefni í rúmt ár: „Þetta verkefni sem ég er að vinna að snýst í rauninni um að fá kort frá Google í farsímann. Þetta er svipað og Google Maps, hægt er að færa kortið til, „súmma“ inn og út, leita að hlutum, fá leiðbeiningar til að komast á milli staða og svo er hægt að fá gervihnattamyndir líkt og í Google Earth.

Og þetta fer allt fram á netinu þannig að þetta kemur beint frá Google samtímis. Nýjungin sem við kynntum um daginn er sú að nú sjást grænar, gular og rauðar línur sem sýna hvernig umferðin er á hraðbrautunum í Bandaríkjunum.“

Hægt að finna pitsustað í Frakklandi
Guðmundur hefur unnið hjá Google í eitt ár og kom fyrsta útgáfa þessa verkefnis út í nóvember síðastliðnum. Spurður um hvort þessi þjónusta væri mikið notuð sagði Guðmundur svo vera og væri á uppleið: „Notkunin er að aukast á þessu. Það góða við þetta er t.d. að þetta er ókeypis frá Google, þú þarft bara farsíma sem við styðjum, og við styðjum mikinn fjölda, og þú getur bara náð í þetta og notað þetta. Þarft ekki áskrift eða neitt og það einfaldar þetta mjög mikið,“ en auk þess að geta notað þetta í Bandaríkjunum er hægt að fá kort af Kanada, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Spáni en einungis er hægt að fá umferðarupplýsingar í Bandaríkjunum. Þrátt fyrir það eru möguleikarnir nokkrir í Evrópulöndunum: „Það er t.d. hægt að leita að pitsustað í Frakklandi eða fá götukort af Berlín.“

Guðmundur segir að hraðbrautarviðbótin hafi vakið frekar mikla athygli enda eru sumar af stórborgum Bandaríkjanna þekktar fyrir stóra umferðarhnúta og því ættu slíkar upplýsingar að koma sér vel. Spurður um hvort slík þjónusta muni verða í boði á Íslandi sagði Guðmundur léttur í bragði að það gæti verið auðvelt að framkvæma það: „Við vorum einmitt að grínast með þetta að setja eina græna línu á Íslandi, samanborið við Los Angeles,“ en á meðan samtalinu stóð leiðbeindi Guðmundur blaðamanni í gegnum tæknina og gat blaðamaður séð umferðarþungann í Los Angeles og var hann nokkuð þungur, gular línur víðast hvar og margar rauðar, en lítið af grænum enda háannatími og klukkan að ganga átta um morgun og flestir á leið til vinnu.

Eins og lítið fyrirtæki þrátt fyrir fjölda starfsmanna
Eins og áður segir var klukkan að ganga átta þegar blaðamaður ræddi við Guðmund og var hann þá löngu mættur til vinnu. Lá beinast við að spyrja hvort þetta væri andinn í fyrirtækinu, að mæta eldsnemma og hætta seint: „Nei nei, það er allur gangur á þessu. Ég vinn frekar mikið með Evrópu þannig að það eru oft símtöl á morgnana.“

Yfirleitt eru um 2–10 manns í starfshópum hjá Google og segir Guðmundur andrúmsloftið vera mjög gott miðað við stærð vinnustaðarins, en tæplega átta þúsund manns starfa þar í dag: „Þetta er mjög frjótt umhverfi. Það er verið að koma með nýjar hugmyndir, ræða og pæla hvernig sé hægt að bæta heiminn. Það er stöðugt verið að koma með nýjar leiðir til að gera hlutina. Google hegðar sér líka á margan hátt eins og lítið fyrirtæki, það er auðvelt að koma hlutum í gegn og það er ótrúlega spennandi,“ og bætti Guðmundur við að góð samskipti væru á milli hátt og lágt settra og til marks um það sagði hann að margir nýir starfsmenn væru undrandi á því hvað allt væri opið og að umræðan væri sterk: „Innan fyrirtækisins er ekki verið að leyna miklu og þaðfinnst mér nauðsynlegt.“

Tæknilegur bakgrunnur þykir nauðsynlegur
Guðmundur hefur nokkra reynslu af hugbúnaðar- og tölvubransanum en hann starfaði við hann hér á Íslandi áður en hann fluttist til Bandaríkjanna: „Ég flutti frá Íslandi 2003 og var þá búinn að vera á Íslandi að reka mitt eigið fyrirtæki, sem hét Dímon hugbúnaðarhús, í nokkur ár. Ég fór þá út í MBA-nám í MIT-háskólanum og flutti svo árið 2005 á vesturströndina og hóf störf hjá Google,“ en Guðmundur útskrifaðist frá Háskóla Íslands sem rafmagnsverkfræðingur. Þrátt fyrir að vinna ekki við forritun sjálfur þá þykir nauðsynlegt að vera með tæknilegan bakgrunn til að skilja eðli og umhverfi vörunnar, en Guðmundur vann í farsímageiranum á Íslandi áður en hann fluttist út.

Um framtíðina taldi Guðmundur að mikið væri að fara að gerast í farsímaheiminum. Mikil áhersla væri lögð á þessa tækni, mörg stórfyrirtæki væru að vinna að henni og því væru möguleikar miklir. Kortaþjónustan ætti upp á pallborðið hjá fólki sem væri á flakki, fremur en t.d. vefþjónusta í símum. Auk þess taldi hann að fleiri nýjungar ættu eftir að koma fram í nánustu framtíð.

Hægt er að fá nánari upplýsingar um verkefnið og nýta sér þjónustuna í gegnum GSM síma með því að fara inn á vefslóðina www.google.com/gmm.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert