Veraldarvefurinn er 15 ára í dag en þann 6. ágúst 1991 setti Bretinn Tim Berners-Lee, sem þá starfaði hjá rannsóknarstofnuninni CERN í Sviss, tengil á tölvukóðann fyrir www á alt.hypertext umræðusvæðið á netinu svo aðrir gætu hlaðið honum niður og notað hann.
Á þessari fyrstu vefsíðu var að finna útskýringu á veraldarvefnum og hvernig setja ætti upp netþjón. Berners-Lee sagði, að markmiðið væri að tengja saman allar fáanlegar upplýsingar sem geymdar væru með rafrænum hætti. Til þess var notaður svonefndur stiklutexti, sem þá var vel þekktur en Berners-Lee tengdi fyrstur saman stiklutexta og netið.
Notkun netsins og veraldarvefjarins varð þó ekki almenn fyrr en nokkrum árum síðar þegar fram komu vefskoðarar á borð við Mosaic, sem gerðu almenningi kleift að nota tölvur til að leita með auðveldum hætti að upplýsingum á vefnum.
Þann 1. ágúst sl. voru samtals 92.615.362 vefsíður skráðar á veraldarvefnum.