Á FRÉTTAVEF BBC kemur fram að samkvæmt nýrri könnun séu börn sem eigi eldri systkin fjörugri og eigi auðveldara með að koma öðrum til að hlæja en í könnuninni voru eitt þúsund börn spurð hvort þau ættu auðvelt með að vera í góðu skapi og grínast.
Meira en helmingur þeirra barna sem áttu eldri systkin sögðu að þau ættu auðvelt með grín og glens, á móti einum þriðja á meðal þeirra sem áttu bara yngri systkin.
Ástæða þessa er rakin til þess að yngri systkin þurfa að beita öðrum brögðum í samkeppninni um athygli frá foreldrum en það er ekki nóg með það, því það er líklegt að þessi hæfileiki, að geta haldið í góða skapið, muni fylgja þeim út í lífið.
Í könnuninni voru nefnd þekkt yngri systkin eins og Rowan Atkinson sem dæmi um einstaklinga sem hefðu komist langt á gríninu en ástæða þess að hann hefur náð svo langt sem grínisti er þá rakin til stöðu hans innan fjölskyldunnar og hvernig persónuleikinn mótaðist af stöðunni.
Yngstu börnin þurfa að berjast um athyglina við þau eldri og þau geta því þurft að vera nokkuð útsjónarsöm í þeirri baráttu. Þau velja óvenjulegri leiðir og taka meiri áhættu og virðast vera næmari fyrir því hvað vekur hlátur en eldri systkin eru. Eldri systkin velja sér hinsvegar oft mun ábyrgðarmeiri hlutverk.
Það er því skondið í því sambandi að byltingarmenn eins og Castro og Karl Marx áttu báðir eldri systkin.
Steininn virðist þó hafa tekið úr þegar könnunin sýndi að karlar teldu sig eiga auðvelt með að fá konur til að hlæja í 71% tilvika en einungis 39% kvenna töldu sig eiga auðvelt með að fá karla til að hlæja.
Bretar sem lengi hafa verið annálaðir fyrir góða fyndni virðast meta þessa eiginleika mikils og það ekki einungis á meðal barna sinna heldur einnig í starfi því almennt telja 82% Breta sig eiga auðvelt með að fá annað fólk til að hlæja.
Það að yngri systkin séu prakkarar á því sínar stoðir í því að persónuleg reynsla á uppvaxtarárum þeirra kallar á þessi viðbrögð og því er ekki talið að fyndi sé til að mynda ættgeng - hún mótist einfaldlega af uppvaxtarárunum og því umhverfi sem þá er ráðandi.
Þessi eiginleiki getur svo nýst vel í starfi því á þennan hátt hafa börnin lært að leysa úr vandamálum án þess að beita átökum eða hótunum - og fá samt sitt fram.