Plútó, sem í sjö áratugi hefur verið talin níunda og ysta reikistjarna sólkerfisins, hefur misst þá stöðu sína. Þetta var niðurstaða þings Alþjóðasambands stjörnufræðinga, sem haldið er í Prag í Tékklandi en stjörnufræðingarnir komust að þeirri niðurstöðu að Plútó væri ekki eiginleg pláneta heldur svonefnd „dvergpláneta" en nýlega hafa fundist hnettir í jarði sólkerfisins sem eru svipaðir að stærð eða jafnvel stærri en Plútó.
Um 2500 stjörnufræðingar hafa rætt þetta mál af kappi undanfarna 10 daga í Prag og varð niðurstaðan sú eftir atkvæðagreiðslu á þinginu í dag, að stærð Plútó og óreglulegur sporbaugur gerði það að verkum, að ekki væri hægt að fella hnöttinn í flokk með hinum átta viðurkenndu reikistjörnum: Merkúr, Venusi, Jörðinni, Mars, Júpíter, Satúrnusi, Úranusi og Neptúnusi.
Öflugir nýir stjörnusjónaukar, sem hafa dregið fram í dagsljósið stærðarinnar hluti við ystu mörk sólkerfisins, leiddu til þeirrar umræðu að breyti bæri skilgreiningu á hugtakinu „pláneta“, en enska orðið „planet“ er dregið af gríska orðinu sem þýðir „ferðalangur“ eða „flakkari“. Nýlega hafa hnettir við ystu mörk sólkerfisins uppgötvast sem eru jafnstórir eða stærri en Plútó og hafa stjörnufræðingar í kjölfarið dregið það í efa hvort telja ætti þessa hnetti til nýrra pláneta eða ekki.
Umræðan um skilgreiningar á plánetum hófst fyrir alvöru í júlí í fyrra þegar bandarísk stjörnufræðingateymi greindi frá því að Plútó væri mun minni en hinn hnötturinn, sem nefndur er 2003 UB313.
Plútó fannst árið 1930 en hnötturinn, sem er minni en tunglið, ber nafn guðs undirheima í grískri goðafræði. Plútó fer umhverfis sólu í 5.906.380.000 km fjarlægð að jafnaði og er 247,9 jarðarár að fara hringinn.
Til stendur að senda ómannað geimfar, New Horizons, til Plútó árið 2015.