Einn virtasti vísindamaður Bandaríkjanna, John Holdren, segir að þegar hafi orðið hættulegar breytingar á loftslagi jarðarinnar. Sagði hann í viðtali við BBC að breytingar á loftslaginu hafi verið mun hraðari en spáð hefði verið.
Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins, BBC. Holdren er forseti Vísindaframfarasamtaka Bandaríkjanna (AAAS).
„Við erum ekki að tala lengur um það sem loftslagslíkön segja að geti gerst í framtíðinni. Við verðum nú vitni að hættulegri röskun af manna völdum á loftslagi jarðarinnar og við munum sjá meiri breytingar,“ sagði Holdren.
Hann lagði áherslu á hve alvarleg bráðnunin á Grænlandsjökli væri, og sagði að ef ekki yrði gripið til róttækra ráðstafana myndi hitabylgjum, skógareldum og flóðum í heiminum fjölga.
Ef breytingarnar héldu áfram með sama hraða væri ekki útilokað að yfirborð sjávar myndi hækka um fjóra metra á þessari öld, sem væri mun meira en spár hafi fram til þessa gert ráð fyrir.