Breskur almenningur telur hreyfingarleysi, svefnleysi, þreytu og streitu helstu ógnina við heilbrigði sitt samkvæmt umfangsmikilli könnun sem fyrirtækið Legal and General framkvæmdi. Konur hafa þó ívið meiri áhyggjur af ofangreindum þáttum en karlar en tvær af hverjum þremur konum, sem tóku þátt í könnuninni, kváðust hafa mesta áhyggjur af ofangreindum þáttum. 58% karla kváðust hins vegar hafa það. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Rúmlega 5.000 manns tóku þátt í könnuninni og segja sérfræðingar niðurstöðurnar endurspegla áhyggjur fólks af nútímalifnaðarháttum.
Fólkið var m.a. beðið um að nefna nokkra heilbrigðisþætti sem höfðu valdið þeim mestum áhyggjum á undanförnum þremur mánuðum og nefndu 48% þátttakenda að þeir hreyfðu sig ekki nóg. 42% nefndu svefnleysi, 34% þreytu, 29% tannlæknaþjónustu og 27% streitu. Það vakti athygli að einungis 15% nefndu óbeinar reykingar og 12% nefndu áfengisdrykkju. Þá nefndu um 25% aukaefni í matvælum.
„Það er ljóst að fólk hefur mun meiri áhyggjur af lífsmáta okkar en reykingum og drykkju,” segir Chris Rolland, yfirmaður heilbrigðissviðs Legal and General, „Það er fátt jafn mikilvægt í lífinu og heilsa okkar og því er mikilvægt að fólk skoði lífsmáta sinn og reyni að ganga úr skugga um að hann komi ekki niður á heilsu þeirra. Þannig getur fólk vonandi komið í veg fyrir að það gangi of nærri sér.”
„Rannsóknin sýnir hvað 24/7 lífsmátinn er að gera okkur,” segir Angela Mawle, yfirmaður bresku heilbrigðisstofnunarinnar Public Health Association. „Vasatölvur og farsímar þýða það að við erum alltaf á vakt. Það er erfitt að hægja ferðina og fólk berst við að finna tíma til að slaka á. Þetta hefur augljóslega áhrif á heilsufar fólks en það er einnig mikilvægt að hafa það íhuga að það rignir yfir okkur fréttum sem stundum gera það að verkum að upplifum okkar á hlutunum er ekki alveg í samræmi við raunveruleikann. Það er því stundum hætt við því að okkur finnist vandamálin stærri en þau eru.”