Vísindamenn við háskólann í Manchester segja að öfugt við það sem fólk almennt haldi þá sé ekkert athugavert við það í sjálfu sér að heyra raddir úr eigin höfði, talið er að allt að einn af hverjum 25 heyri reglulega raddir og að margir leiti aldrei læknishjálpar þar sem raddirnar trufli ekki daglegt líf. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Aylish Campbell, vísindamaður við háskólann segir að vitað sé til þess að margir heyri raddir og að sumir sérfræðingar haldi að meirihluti þeirra sem búa við þetta leiti aldrei til læknis. Þá segjast margir verða fyrir jákvæðum áhrifum af röddum þeim sem þeir heyra, raddir tengjast því ekki endilega slæmum geðsjúkdómum líkt og margir halda.
Sérfræðingar segja þó að í um 70% tilvika megi rekja til áfalla sem viðkomandi hafi orðið fyrir á ævinni, en að upplag ráði því hvaða áhrif raddirnar hafa. Þannig geti þær haft mjög slæm áhrif á þá sem eru í andlegu ójafnvægi, en góð á þá sem eru bjartsýnir og í góðu jafnvægi.