Microsoft varar við alvarlegum galla í Explorer-vafranum

Microsoft hefur gefið út aðvörun vegna alvarlegs galla sem komið hafi í ljós í Explorer-vafranum og geri tölvuþrjótum kleift að leggja undir sig einkatölvur í gegnum vafrann. Hugbúnaðarfyrirtækið Sunbelt segir ýmsa sem haldi úti klámvefjum notfæra sér þennan galla í vafranum.

Enn sem komið er liggur ekki fyrir hvernig hægt er að loka þessari leið í gegnum vafrann, en Microsoft hefur gefið út leiðbeiningar til notenda um hvernig þeir geti forðast að verða fyrir skakkaföllum af þessum sökum. Bót verði sett á vafrann í næstu öryggisuppfærslu hans, 10. október, eða fyrr ef aðstæður krefjist þess.

Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, BBC.

Gallinn í vafranum tengist svonefndri vigurteiknun, og geta þeir sem hafa yfir að ráða vel gerðum vefjum notfært sér gallann og komið fyrir svo að segja hverju sem þeim sýnist í þeim tölvum sem þeir beina spjótum sínum að. Tölva sem yrði fyrir slíkri atlögu yrði ónothæf. Athuganir sem Sunbelt gerði á tölvum sem eru með Windows-stýrikerfið og allar nýjustu bætur og öryggisuppfærslur sýndu að þrjótar gátu engu að síður komið inn í tölvurnar miklu af njósnahugbúnaði og öðrum spillihugbúnaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert