Gatið á ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu jafn stórt nú og mest hefur orðið

Gatið á ósonlaginu yfir Suðurskautslandinu þetta árið er orðið jafn stórt og árið 2000, eða 29,5 milljónir ferkílómetra, sem er það mesta sem gatið hefur mælst, að því er veðurstofa Sameinuðu þjóðanna greindi frá í dag. Ósoneindir í gatinu eru þó færri núna en 2000, og er það meira áhyggjuefni en stærð gatsins, segir Geir Braathen, ósonsérfræðingur við veðurstofu SÞ (WMO) í Genf.

Gatið svonefnda er í raun þynning sem verður á ósonlaginu á veturna. Bandaríska geimvísindastofnunin, NASA, mælir stærð gatsins og magn ósoneindanna í því. Braathen segir að magn ósoneindanna gefi í raun gleggri mynd af eyðingu ósonlagsins en stærð gatsins, þar sem fækkun eindanna sýni hversu mörg tonn af ósoni séu horfin.

Þynning ósonlagsins leiðir til þess að meira sleppur af skaðlegum útfjólubláum geislum frá sólinni til jarðar. Þynningin stafar að miklu leyti af losun klórflúorkolefni út í andrúmsloftið úr ísskápum, loftkælikerfum og öðrum tækjum. Samkvæmt alþjóðlegu samkomulagi frá 1997 hafa flest ríki heims fallist á að draga úr losun þessara efna. Talið er að ósonlagið muni ef fram líða stundir þéttast á ný, en að gatið yfir Suðurskautslandinu muni ekki lokast fyllilega fyrr en um 2065.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert