Sálfræðingar við Kaliforníuháskóla halda því fram að konur klæði sig í djarfari föt eða „flottari“ á mælikvarða tískunnar á þeim tíma tíðahrings þegar egglos er. Rannsókn var gerð á konum í háskóla og niðurstöðurnar urðu þær að klæðaburður kvennanna breyttist þegar þær höfðu egglos. Dómnefnd skipuð körlum og konum skoðaði ljósmyndir af þeim og bar saman við tíðahring.
Sérfræðingur við sálfræðideild háskólans segir konurnar þá frekar hafa klæðst pilsum, verið í flíkum sem sýndu meira af beru holdi og tískuvitund þeirra aukist, þ.e. fötin verið meira í takt við tískuna. Niðurstöðurnar birtust í fræðiritinu Hormones and Behavior, eða Hormónar og hegðun.
Mörg dýr láta frá sér sterka lykt á mökunartíma, breyta um lit eða gefa önnur greinileg merki frá sér um löngun til að fjölga sér. Konur hafa til þessa ekki þótt bera það utan á sér hvenær þær hafa egglos en fyrrnefndur rannsóknarhópur segist nú hafa greint þau merki, þ.e. að klæðnaður verði djarfari og tískutengdari og meira hold sjáanlegt. Reuters segir frá þessu.