Einn af hverjum átta Bandaríkjamönnum á við vandamál tengd netnotkun að stríða, samkvæmt könnun sem framkvæmd var af sérfræðingum læknisfræðideildar Stanford háskóla í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Þykja niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að netfíkn sé að verða alvarlegt vandamál.
Elias Aboujaoude, forsvarsmaður verkefnisins segir það m.a. benda til þess að um sjúklegt hegðunarmynstur sé að ræða að fjöldi fólks sagðist fela netnotkun sína eða fara á netið til að komast í betra skap. Hvoru tveggja þykir einkenna hegðun fíkla.
Samkvæmt fyrri rannsóknum er netfíkn algengust meðal einhleypra menntaðra karlmanna á þrítugsaldri en í þeim rannsóknum var miðað við að fíklar eyddu meira en 30 stundum á viku í tölvunni án þess að nauðsyn bæri til.