Ný ítölsk rannsókn bendir til þess að mikil brauðneysla auki líkur á krabbameini í nýrum. Þá eykur neysla á hrísgrjónum og pasta einnig líkurnar, en fuglakjöt og grænmeti hins vegar virðist minnka líkur á slíku krabbameini ef marka má rannsóknina.
Rannsóknin sem birt var í alþjóða-krabbameinstímaritinu var gerð á 2.300 manns og tók einungis til nýrnakrabbameins. Brauðneysla virtist hafa mest áhrif og er talið að hátt hlutfall glúkósa í brauði, pasta og hrísgrjónum geti verið áhrifavaldur.
Neysla á öðrum matartegundum á borð við rautt kjöt, kaffi, te, fisk, ost, kartöflur og ávexti virtist engin áhrif hafa. Þeir sem borðuðu mikið af fuglakjöti, unnum kjötvörum og grænmeti voru síður líklegir til að fá nýrnakrabbamein.
Talsmenn bresku krabbamenssamtakanna vara þó við því að þetta séu fyrstu slíku niðurstöðurnar sem komi fram og að ekki sé ástæða fyrir fólk að breyta mataræði sínu. Reykingar og offita séu enn þeir þættir sem helst auki líkur á krabbameini. Þá er rannsóknin gagnrýnd fyrir það að treyst var á minni þáttakenda um það hvað þeir hafi borðað síðastliðin tvö ár, og að niðurstöður séu þvi óáreiðanlegri en ella.