Þykkni úr kryddinu túrmerik kann að geta dregið úr liðagigt og beinþynningu, samkvæmt niðurstöðum nýrrar bandarískrar rannsóknar. Túrmerik hefur um aldir verið notað í Asíu sem lyf gegn bólgusjúkdómum. Í rannsókninni var sýnt fram á með hvaða hætti þykknið hefur áhrif.
Frá þessu greinir fréttavefur breska ríkisútvarpsins, en niðurstöður rannsóknarinnar, sem gerð var við Háskólann í Arizona, birtast í vísindaritinu Arthritis & Rheumatism.
Haft er eftir sérfræðingum að þetta kunni að leiða til þróunar nýrra lyfja gegn gigt, en ólíklegt sé að það hafi áhrif að borða meira af túrmeriki. Þá segja höfundar rannsóknarinnar að gera þurfi ítarlegar rannsóknir áður en hægt sé að mæla með túrmeriki í lækningaskyni.