Algengi sortuæxla eykst hraðast allra krabbameina

Eftir Jóhönnu Ingvarsdóttur join@mbl.is

}

Fyrirbyggjandi aðgerðir

Húðkrabbamein eru algengari í fólki sem er ljóst á hörund og er með blá, grá eða græn augu, vegna þess að það er síður varið frá náttúrunnar hendi gegn skaðlegum áhrifum útfjólublárrar geislunar. Einstaklingum, sem hafa sólbrunnið illa undir 20 ára aldri, er frekar hætt við að fá sortuæxli síðar á ævinni. Þeir, sem hafa óreglulega fæðingarbletti, sérstaklega ef sortuæxli eru í ættinni, fá fremur sortuæxli en aðrir. "Almenn fyrirbyggjandi ráð fela í sér að forðast sólbruna, klæða af sér sólina, nota sólarvörn, vera ekki í sólskini um miðjan daginn og síðast en ekki síst að nota ekki ljósabekki. Þrátt fyrir að sterk rök séu gegn sólböðum bendir flest til þess að brúnn húðlitur sé í tísku. Könnun, sem framkvæmd var hérlendis, bendir til að áhættuhegðun hér sé algeng og því má segja að fræðslan hafi ekki skilað sér nógu vel. Áberandi er að flestir hafa brunnið í sólinni og að regluleg notkun sólarvarnarkrema er ekki almenn. Sérstaklega virðist sem sólbruni barna og unglinga hafi í för með sér meiri hættu á myndun sortuæxla, en slík hegðun síðar á ævinni. Það er því afar mikilvægt að huga vel að sólarvörnum barna og unglinga."

Ljósabekkir áhyggjuefni

Útfjólubláu ljósi má skipta í stutta UVB-geisla, sem valda sólbruna, og langa UVA-geisla, sem bæla ónæmiskerfið og valda hrukkumyndun.

Ljósabekkir gefa frá sér nánast eingöngu UVA-geisla. Í fyrstu voru eingöngu UVB-geislar tengdir húðkrabbameini, en seinni tíma rannsóknir hafa einnig sýnt sterk tengsl við UVA-geisla, segir Bárður.

"Fyrstu sólarvarnirnar veittu eingöngu vörn gegn UVB-geislun og bruna og gátu þannig aukið UVA-geislamengun þeirra sem notuðu sólarvarnarkrem. Flestar sólarvarnir í dag veita vörn gegn bæði UVA- og UVB-geislum, en sólarvarnarstuðullinn segir eingöngu til um vörn gegn UVB-geislum og mælir í raun og veru hve miklu lengri tíma það tekur að mynda roða í húð með sólarvarnarkremi samanborið við ómeðhöndlaða húð. Er þá miðað við að borið sé nokkuð þykkt lag á húðina. Rannsóknir hafa sýnt að flestir bera of þunnt lag á húðina og nota sólarvörnina með röngu hugarfari, til að lengja tímann sem hægt er að vera í sól án þess að brenna. Þetta kann að leiða til óhóflega mikillar UVA-geislunar, en rétt notkun sólarvarnarkrema á ekki að leiða til aukins tíma í beinu sólskini."

Lífshorfurnar góðar

Æxli þessi hafa ríka tilhneigingu til að dreifa sér til ýmissa líffæra, sem gerir það að verkum að mun erfiðara verður að lækna krabbameinið ef það greinist seint. Þess vegna er mikilvægt að fylgjast með fæðingarblettum og breytingum sem á þeim verða.

Sortuæxli eru oft ósamhverf, það er annar helmingurinn er ekki spegilmynd hins. Jaðrar sortuæxla eru gjarnan skörðóttir og oft ógreinilegir og þau eru oft mislit. Önnur sjaldgæfari einkenni sortuæxla eru breytingar á yfirborði þeirra, t.d. með upphleyptu svæði eða sári, dreifingu litar í húðinni umhverfis æxlin eða óeðlileg tilfinning í þeim. Rétt er að leita læknis ef vart verður breytinga í fæðingarblettum. Að sögn Bárðar hafa lífshorfur sjúklinga með sortuæxli batnað mikið og geta langflestir þeirra, sem greinast snemma, vænst þess að ná fullum bata. Tölur sýna að 90% þeirra, sem greinast með sortuæxli, eru á lífi fimm árum síðar.

Staðreyndir um sortuæxli

* Sjúkdómur hvíta mannsins.

* Nýgengi eykst um 4-8% á ári.

* Greinist venjulega um miðbik ævinnar.

* Vaxandi hjá ungu fólki.

* Sjaldgæft, en ekki óþekkt hjá börnum.

* Algengasti banvæni húðsjúkdómurinn.

* Sólbruni er sjálfstæður áhættuþáttur óháður húðgerðinni.

* Sólbruni hjá börnum, allt að 18 ára aldri, virðist hafa í för með sér mestu áhættuna.

* Áhætta eykst marktækt á myndun sortuæxlis ef ljósabekkir eru notaðir oftar en tíu sinnum á ári.

Sortuæxli
Sortuæxli
Sortuæxli
Sortuæxli
Sortuæxli
Sortuæxli
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert