Star Wars drengurinn vinsælastur á netinu

Star Wars drengurinn lifir góðu lífi á YouTube
Star Wars drengurinn lifir góðu lífi á YouTube Reuters

Star Wars drengurinn svokallaði, unglingspiltur sem slóst af kappi fyrir framan myndavél við ósýnilega óvini með stöng sem annars er notuð til að hirða upp golfkúlur, hefur þann vafasama heiður að leika aðalhlutverkið í því myndbandi sem oftast hefur verið horft á á netinu.

Drengurinn, sem heitir Ghyslain Raza, tók myndbandið sjálfur upp í skólanum sem hann gengur í í Kanada árið 2003, síðan bekkjarfélagar hans settu myndbandið á netið skömmu seinn hefur verið horft á myndbandið 900 milljón sinnum.

Þetta kemur fram í samantekt yfir vinsælustu myndskeiðin á netinu sem markaðfyrirtækið Viral hefur gert með því að taka saman tölur á ýmsum vefsíðum á borð við YouTube og Google.

Raza er síður en svo sáttur við vinsældir sínar og hefur hafið málsókn gegn skólafélögum sínum.

Gary Brolsma, sem er nítján ára nemi frá New Jersey í Bandaríkjunum, er þó öllu sáttari. 700 milljónir netnotenda hafa horft á myndband þar sem hann þykist syngja rúmenska popplagið Numa Numa sem naut mikilla vinsælda fyrir fáum árum. Honum hefur síðan boðist að leika í sjónvarpsauglýsingu fyrir Apple, þar sem hann auglýsir heyrnartól fyrir iPod-spilara.

Á eftir þeim félögum Ghyslain Raza og Gary Brolsma eru á listanum heldur þekktari nöfn.

Kynlífsmyndband hótelerfingjans og samkvæmisljónsins Paris Hilton og undirfataauglýsing með hinni kynþokkafullu Kylie Minogue eru í þriðja og fjórða sæti á listanum.

Star Wars drengurinn á YouTube

Gary Brolsma flytur lagið Numa Numa á Google Video

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert