Vaxandi vinsældir vefvarps hafa dregið úr sjónvarpsáhorfi, að því er niðurstöður könnunar sem gerðar voru í Bretlandi benda til. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, sem lét gera könnunina. Um 43% þeirra Breta sem skoða myndskeið á vefnum eða í lófatölvu a.m.k. einu sinni í viku segja að fyrir vikið horfi þeir minna á hefðbundið sjónvarp.
Áhorf á myndskeið á vefnum og í lófatölvum fer vaxandi. Segir þriðji hver vefvarpsnotandi að áhorf sitt hafi aukist frá í fyrra. Vefvarpsáhorfendur eru þó enn í miklum minnihluta í Bretlandi, þar sem aðeins um níu af hundraði landsmanna segjast nota vefvarp að staðaldri.
Þrettán prósent segjast horfa á vefvarp öðru hvoru, og 10% reikna með að fara að nota það á næsta ári. En tveir af hverjum þrem segjast ekki nota vefvarp, og telja ólíklegt að þeir fari að gera það næsta árið.
Vefvarp nýtur mestra vinsælda meðal ungs fólks, og sögðust 28% á aldrinum 16-24 ára nota það oftar en einu sinni í viku. Tíu af hundraði fólks á aldrinum 25-44 ára nota vefvarp reglulega, en aðeins fjögur prósent þeirra sem orðnir eru 45 ára. Fram hefur komið í fyrri könnunum að sjónvarpsáhorf í aldurshópnum 16-25 ára minnkaði um 2,9% frá 2003 til 2005.