Hækkandi sjávarhiti í N-Atlantshafi myndar „andrúmsloftstímasprengju“

Hlýnunin í andrúmslofti jarðar skapar „andrúmsloftstímasprengju“ með því að hita efsta lag Norður-Atlantshafsins, að því er breskir vísindamenn segjast hafa komist að. Efstu 1.500 metrarnir í hafinu á milli Vestur-Evrópu og austurstrandar Bandaríkjanna hafi hlýnað um 0,015° á undanförnum sjö gráðum. Þessi hækkun geti dugað til að hækka hitann í andrúmsloftinu ofan yfirborðsins um allt að níu gráður.

Frá þessu segir The Guardian.

Blaðið hefur eftir Neil Wells, vísindamann við Hafrannsóknamiðstöð Bretlands í Southampton: „Fólki finnst þetta kannski ekki vera mikil hækkun, en þetta skiptir miklu máli.“ Greint var frá niðurstöðum bresku vísindamannanna í tímaritinu Geophysical Research Letters.

James Lovelock, breskur vísindamaður sem er höfundur svokallaðrar gaia-kenningar um lífið á jörðinni, varaði við því að svona hlýnun gæti kæft sjávarlífverur og hraðað loftslagsbreytingum. Lovelock segir að varmablöndun vatns og næringarefna stöðvist þegar efra lag sjávarins nái um 12° hita. „Þess vegna er sjórinn í hitabeltinu blátær en heimskautasjórinn á litinn eins og súpa,“ sagði Lovelock.

Rannsókn bresku vísindamannanna bendir til að varminn sem geymist í hafinu geti losnað út í andrúmsloftið í framtíðinni, og unnið gegn tilraunum til að draga úr hækkun hitans í andrúmsloftinu fyrir tilstuðlan manngerðra gróðurhúsalofttegunda.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert