Mannkynið verður að nema land á plánetum í fjarlægum sólkerfum til að tryggja að það lifi áfram, að því er hinn þekkti eðlisfræðingur Stephen Hawking sagði í viðtali við breska ríkisútvarpið, BBC, í dag.
„Á meðan mannkynið býr aðeins á einni plánetu er langtímaafkoma þess í hættu,“ sagði Hawking. „Fyrr eða síðar kunna hamfarir, t.d. árekstur við smástirni eða kjarnorkustyrjöld, að þurrka okkur út. En þegar við förum út í geiminn og stofnum þar sjálfstæðar nýlendur verður framtíð okkar borgið.“
Þar sem ekki eru í okkar sólkerfi neinar plánetur líkar jörðinni sagði Hawking að mannkynið yrði að fara til annars sólkerfis í leit að byggilegri plánetu til að nema land á. Ferðalagið til næstu sólar myndi taka um 50.000 ár, ef notast væri við eldflaug á borð við Apollo, sagði Hawking.
En hann telur að með efnis/andefnis-eyðingu verði hægt að ferðast næstum því á ljóshraða. Þegar efniseind og andefniseind hennar eyða hvor annarri breytist allur massi þeirra í hreina orku. Hawking er í hópi þeirra vísindamanna sem telja að knýja megi geimflaugar með þessum hætti.