18,8% fullorðinna reykja á Íslandi

Reykingar.
Reykingar. AP

Samkvæmt samantekt Capacent Gallup sem unnin var fyrir Lýðheilsustöð er umfang reykinga á hægri en stöðugri niðurleið. Árið 2006 virðast 18,8% fólks á aldrinum 15-89 ára reykja daglega miðað við um 30% árið 1991.

21% karla reykja daglega miðað við 17% kvenna. Lítill og ómarktækur munur greinist á hlutfalli kvenna og karla sem reykja ekki að staðaldri.

Í frétt á vef Lýðheilsustöðvar kemur fram að eins og fyrri ár er töluverður munur á reykingum eftir aldri og nú sem fyrr eru reykingar algengastar hjá fólki á aldrinum 20-29 ára. Þar á eftir kemur aldurshópurinn 50-59 ára. Nú sem endranær eru reykingar einnig langminnstar í elsta aldurshópnum (80-89 ára).

Þegar tölur um umfang reykinga eru skoðaðar kemur í ljós að háskólamenntað fólk reykir minnst allra (8,3%) en þeir reykja mest (29,5%) sem eru einungis með grunnskólamenntun og viðbótarmenntun sem er minni en stúdentspróf. Einnig vekur athygli að í hópi háskólamenntaðra eru líka langflestir sem hafa aldrei reykt (57,7%).

Þegar bornar eru saman reykingar milli tekjuhópa kemur ekki fram eins augljós munur og á milli menntunarstigs. Reykingar minnka nokkuð eftir því sem fjölskyldutekjur hækka en munurinn er ekki eins afgerandi og þegar menntunin er skoðuð, að því er segir á vef Lýðheilsustöðvar.

Skýrslan í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert