Danir eru margir hverjir hjátrúarfullir ef marka má rannsókn sem danska rannsóknarstofnunin Userneeds hefur gert. Þetta kemur fram á danska fréttavefnum avisen.dk. Annar hver Dani trúir samkvæmt könnuninni á drauga, anda eða einhvers konar afturgöngur. Næstum jafn margir taka mark á stjörnuspeki og tarot-spilum. Fjórðungur Dana segist svo trúa því að fljúgandi furðuhlutir séu geimskip frá fjarlægum reikistjörnum.
Morten Warmind, sem er lektor í trúarsögi við Kaupmannahafnarháskóla, segir að fólk leitist við að finna eigin útskýringar á þeim spurningum sem vísindin geti ekki svarað.
Fleiri skoðanir eru hins vegar á því hver útskýringin á hjátrúnni geti verið. Félagsfræðingurinn Henrik Dahl segir niðurstöðurnar staðfesta það að margir Danir séu einfaldlega óupplýstir, og eigi erfitt með að sætta sig við að við séum ein í geysimiklum alheimi, sem hafi engan sérstakan tilgang.