Discovery skotið á loft í nótt

Eldrákin frá Discovery sést á kvöldhimninum yfir Flórída.
Eldrákin frá Discovery sést á kvöldhimninum yfir Flórída. Reuters

Geimferjunni Discovery var skotið á loft frá Kennedy geimferðastofnuninni á Canaveralhöfða á Flórída klukkan 1:47 í nótt að íslenskum tíma. Ferðinni er heitið til alþjóðlegu geimstöðvarinnar þar sem sjö manna áhöfn geimsferjunnar á að sjá um ýmislegt viðhald. Meðal geimfara um borð í ferjunni er Svíinn Christer Fuglesang en hann er m.a. með í farangri sínum sænskan jólamat sem hann ætlar að gefa félögum sínum að smakka.

Gert er ráð fyrir að áhöfn Discovery muni í dag kanna, hvort skemmdir hafi orðið á hitahlífum í geimskotinu. Annað kvöld á Discovery að tengjast við geimstöðina og í kjölfarið munu geimfararnir hefja viðgerðir á geimstöðinni. Munu þeir m.a. fara þrívegis í geimgöngur.

Geimskotið í nótt gekk vel. Til stóð að skjóta ferjunni á loft aðfaranótt föstudags en geimskotinu var frestað vegna veðurs. Ekki var ljóst fyrr en undir kvöld í gærkvöld hvort reynt yrði þá.

Gert er ráð fyrir að geimferðin taki 12 daga. Einn í áhöfn Discobery, bandaríska konan Sunita Williams, verður eftir í geimstöðinni og mun dvelja þar í hálft ár. Þjóðverjinn Thomas Reiter kemur hins vegar heim með ferjunni.

Christer Fugelsang beið rólegur eftir geimskotinu í gærkvöldi.
Christer Fugelsang beið rólegur eftir geimskotinu í gærkvöldi. Reuters
Discovery skotið á loft í nótt.
Discovery skotið á loft í nótt. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert