Nær öll íslensk fyrirtæki nýta tölvur og netið

Reuters

Nær öll fyrirtæki á Íslandi nota tölvur og netið eða 87-100%. Níu af hverjum tíu nettengdum fyrirtækjum nota xDSL tengingu og hjá 44% nettengdra fyrirtækja er niðurhalshraði tengingar minnst 2 Mb/sek. 95% nettengdra fyrirtækja nota vírusvörn, 81% nota eldvegg og 75% flytja afrit af gögnum á öruggan stað til geymslu. Þetta kemur fram í nýju hefti sem Hagstofa Íslands hefur gefið út um upplýsingatækni.

Átta af hverjum tíu fyrirtækjum telja tilkomu rafrænna miðla hafa haft áhrif á magn hefðbundinna póstsendinga frá fyrirtækinu síðastliðin fimm ár.

Hærra hlutfall fyrirtækja seldi vörur og þjónustu um internet árið 2005 en árið 2002 eða 32% á móti 21%. Sama gildir um kaup á vörum og þjónustu um internet. Þannig höfðu nærri sex af hverjum tíu fyrirtækjum keypt vörur og þjónustu til eigin nota um internet árið 2005 á móti 37% fyrirtækja árið 2002.

Í heftinu er nánar fjallað um notkun íslenskra fyrirtækja á upplýsingatæknibúnaði og interneti. Einnig er fjallað um rafræn viðskipti ársins 2005 og þær ráðstafanir sem fyrirtæki gera til að tryggja öryggi tölvugagna og tölvubúnaðar.

Rit Hagstofu Íslands

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert