Orkuveitan sænska hefur kannað orkunotkun um það bil fimmtíu ólíkra sjónvarpa, miðað við að kveikt sé á sjónvarpi að meðaltali fimm tíma á dag, eða 1.800 tíma á ári. Meðal þess sem í ljós kom var að flatsjónvörp eru margfalt orkufrekari en myndlampatæki, og miðað við orkuverðið í Svíþjóð er kostnaðurinn fjórfalt meiri.
Frá þessu greinir Sydsvenskan.
Niðurstaða Svíanna er sú, að 50-65 tommu flatsjónvarp þurfi á árinu orku fyrir rúmar þúsund sænskar krónur, eða tíuþúsund kall íslenskan, miðað við að kílóvattstundin kosti eina sænska krónu, eða tíu krónur íslenskar.
„Framleiðendur virðast ekki hafa sérlega mikinn áhuga á að leggja í kostnað við að þróa orkusparandi tækni,“ segir Peter Bennich, verkefnisstjóri hjá sænsku Orkuveitunni. Hann bendir á að stór heimilistæki á borð við ísskápa og þvottavélar hafi verið gerð sparneytnari og kosti helmingi minna í rekstri en flatsjónvörp.
Framleiðendur sjónvarpanna hafi ekki einu sinni getað komið sér saman um staðlaða mælingu á orkuþörf tækjanna. Athugun Orkuveitunnar leiddi í ljós mikinn mun á orkuþörf sjónvarpstækja, en almennt mældist orkuþörf flatsjónvarpa þrefalt meiri en orkuþörf myndlampatækja.