Skemmdir sem ofneysla áfengis veldur á heilanum getur gengið til baka sé drykkju hætt, samkvæmt niðurstöðum evrópskrar rannsóknar.
„Lærdómurinn sem helst má draga af þessari rannsókn er sá, að ef áfengissjúklingar hætta að drekka getur heilinn í þeim endurnýjað að nokkru leyti það sem tapast hefur og starfað betur,“ segir Andreas Bartsch, taugageislunarlæknir við Háskólann í Würzburg í Þýskalandi.
Frá þessu greinir fréttavefur kanadíska ríkisútvarpsins, CBC, en Bartsch og samstarfsmenn hans greina frá niðurstöðum í janúarhefti vísindaritsins Brain.
„En það kemur líka í ljós að því lengur sem maður drekkur of mikið því meiri er hættan á að glata þessum hæfileika til endurnýjunar í heilanum. Áfengissjúklingar mega því ekki fresta því að hætta að drekka. Því fyrr því betra,“ segir Bartsch.
Rannsóknin fór þannig fram að teknar voru segulómmyndir af heila tíu áfengissjúkra karla og fimm kvenna. Einnig var mælt magn efnis sem gefur vísbendingu um styrk heilastarfseminnar. Til samanburðar voru tíu heilbrigðir sjálfboðaliðar.