Um 81 milljón manna gæti láta lífið í heiminum í dag ef jafn banvænn veirusjúkdómur og spænska veikin, sem breiddist út árið 1918, myndi skjóta upp kollinum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn.
Vísindamennirnir, sem unnu að rannsókninni, komust að því að á bilinu 51 til 81 milljón manna myndi deyja ef veiran myndi breiðast út í dag, en töluna fundu þeir með því að fara yfir dánartölur í gegnum söguna. Meðaltalið væri 62 milljónir.
Chris Murrey, hjá Harvard háskólanum sem fór fyrir rannsókninni, segir það hafa komið sér á óvart hvað talan sé há. Hann hóf að rannsaka málið að hluta til vegna þess að hann trúði því að eldri fullyrðingar um að yfir 50 milljónir manna myndu láta lífið væru stórlega ýktar.
„Við bjuggumst við að enda með tölu einhversstaðar á milli 15 og 20 milljónir,“ sagði Murry. „Það liggur fyrir að við höfðum rangt fyrir okkur.“
Rannsóknin verður birt í vísindatímaritinu The Lancet sem kemur út á laugardaginn.
Að minnsta kosti 40 milljónir manna um allan heim létust úr spænsku veikinni árið 1918. Flensufaraldrar hafa hinsvegar verið afar misskæðir í gegnum tíðina. Síðustu tveir, árin 1957 og 1968, voru fremur mildir. Samanlagt létust um þrjár milljónir manna úr veikinni. Tvær milljónir árið 1957 og ein milljón árið 1968.
Miklar vangaveltur hafa verið í gangi varðandi það hversu margir gætu látist þegar næsti inflúensufaraldur myndi hefjast. Tölur frá nokkrum milljónum yfir í hundruð milljóna hafa verið nefndar en ljóst er að aðeins verður um ágiskanir að ræða þar til raunverulegur faraldur mun brjótast út.