Jimmy Wales, einn stofnenda net-alfræðiorðabókarinnar Wikipedia, ætlar að stofna leitarvél sem keppa á við leitarvélina Google um hylli netnotenda. Verkefnið hefur fengið nafnið Wikiasari, sem dregið er af orðunum wiki, sem þýðir hratt á Hawaii og asari, sem merkir ,,nákvæm leit" á japönsku.
Leitarvélin verður þróuð í samvinnu við netverslunina amazon.com og til stendur að opna vefsíðuna snemma á næsta ári.
Wales stofnaði fyrirtækið Wikia fyrr á þessu ári og tryggði sér þá milljóna dala fjármögnun frá Amazon og fleiri fjárfestum til annarra verkefna. M.a. stendur til að setja á laggirnar nýja útgáfu af Wikipedia alfræðiorðabókinni, sem búin verður fleiri kostum en sú eldri, sem greiða þarf fyrir.