Sykurskertir gosdrykkir jafn skaðlegir og þeir sykruðu

mbl.is/Brynjar Gauti
eftir Sunnu Ósk Logadóttur

sunna@mbl.is

SYKURSKERTIR gosdrykkir eru alveg jafn skaðlegir fyrir glerung tanna og þeir sykruðu. Það er ekki sykurinn í drykkjunum sem gerir það að verkum að glerungurinn eyðist, heldur sýran sem þeir innihalda og rotvarnarefnin. Nýleg íslensk rannsókn sýnir að 37% fimmtán ára unglingspilta eru með glerungseyðingu. Mörg dæmi eru um að fólk um tvítugt þurfi að láta gera við glerung á 6–10 tönnum. Slíkar skemmdir eru óafturkræfar og kostnaður við viðgerð á hverri tönn getur hæglega verið um 70–80 þúsund krónur. Viðgerðin er þó ekki endanleg lausn því henni þarf að skipta út á nokkurra ára fresti.

Aukin neysla kolsýrðs vatns jákvæð

Sykurlausir og sykurskertir gosdrykkir seljast nú meira en sykraðir gosdrykkir og hefur svo verið frá því snemma árs 2005. Þá vex sala á kolsýrðu vatni jafnt og þétt. Forsvarsmenn gosdrykkjaframleiðenda á Íslandi sögðu í Morgunblaðinu nýverið að þetta sýndi að ekki þurfi neyslustýringu, markaðurinn velji hollari vörutegundir, en sem kunnugt er hefur Lýðheilsustöð gagnrýnt að gosdrykkir og sykraðir svaladrykkir skyldu ekki vera undanskildir niðurfellingu vörugjalds.

Dr. Helga Ágústsdóttir tannlæknir segir þessa þróun í sölu kolsýrðra drykkja jákvæða að því leyti að ætandi áhrif fosfórsýru sem finnist í sykruðum jafnt sem sykurskertum gosdrykkjum, sé ekki að finna í slíkum vatnsdrykkjum. Sömuleiðis sé þetta væntanlega jákvætt varðandi offituvandann. Þó megi leiða að því líkum að börn og unglingar sem neyti mikils magns hvort sem er sykurskertra eða sykraðra gosdrykkja, geri það á kostnað næringarríkrar fæðu.

"Hins vegar eru sykurskertir gosdrykkir alveg jafnslæmir og þeir sykruðu hvað glerungseyðingu varðar," segir Helga, en hún stýrði landsrannsókn á tannheilsu sem birt var fyrr á þessu ári. Í rannsókninni komu í ljós uggvænlegar niðurstöður um glerungseyðingu hjá unglingum. Þá hafa neyslukannanir Lýðheilsustöðvar sýnt að unglingar, sérstaklega unglingspiltar, drekka gífurlega mikið af gosdrykkjum.

"Gosdrykkir yfirhöfuð eru auðvitað ekki holl vara," bendir Helga á og að unglingar og börn eigi alls ekki að neyta þeirra á hverjum degi.

"Vatn og mjólk," svarar Helga aðspurð um hvaða drykkjum hún mæli með handa börnum og unglingum. Við þorsta eiga menn einfaldlega að drekka vatn, hér erum við svo heppin að eiga gott vatn. Úr mjólkinni fái fólk þau nauðsynlegu efni sem styrki bein og tennur. Hún bendir á að unglingsstúlkur virðist meðvitaðri um þetta þar sem þær drekki mun meira af vatni en jafnaldrar þeirra af hinu kyninu.

Í hnotskurn
» Glerungslaus tönn er algjörlega óvarin fyrir kuli, sliti og tannskemmdum.
» Viðgerðir á glerungseyðingu eru aðeins tímabundin lausn sem þarf að endurnýja allt æviskeiðið.
» Sett er postulínskróna á tönnina sem er mjög kostnaðarsamt.
» Dæmi eru um að fólk um tvítugt þurfi að láta gera við 6–10 tennur sem orðið hafa fyrir glerungsskemmdum.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert